Lífið

Lynn Cohen látin

Sylvía Hall skrifar
Lynn Cohen.
Lynn Cohen. Vísir/Getty

Leikkonan Lynn Cohen lést á föstudag, 86 ára að aldri. Cohen var þekktust fyrir hlutverk sitt sem Magda í hinum geysivinsælu þáttum Sex and the City.

Cohen lék húshjálp Miröndu, einnar aðalpersónunnar í þáttunum, og barnfóstru hennar seinna meir. Hún lék hlutverkið bæði í þáttunum og í báðum bíómyndum sem gerðar voru í framhaldi af þáttunum.

Cohen vakti mikla athygli sem Magda í Sex and the City.Vísir/getty

Á vef Variety er rifjað upp viðtal við hana við Cosmopolitan frá árinu 2018. Þar sagði hún hlutverkið mikilvægt þar sem það sýndi konu á öðrum aldri sem var eldklár, stjórnsöm en skyldi kynhegðun fólks. Hún væri því nokkurskonar framlenging af aðalsöguhetjunum í stað þess að vera gömul kona að „rotna á einhverju elliheimili einhvers staðar“ eins og hún orðaði það sjálf.

Framan af starfaði Cohen nær eingöngu í leikhúsum og kom margoft fram á Broadway. Hún var komin á sjötugsaldur þegar hún hóf leiklistarferil sinn í sjónvarpi og kvikmyndum.

Cohen lék einnig í mörgum kvikmyndum á borð við Munich, The Hunger Games og Vanya on 42nd Street. Þá kom hún fram í þáttunum Law and Order, Damages og Nurse Jackie svo fátt eitt sé nefnt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×