Jófríður Ákadóttir hefur þrátt fyrir ungan aldur komið víða við í tónlistarheiminum. Fyrst með tvíburasystur sínni Ásthildi í Pascal Pinion, síðar með sveitunum Samaris og Gangly og nú síðast með sólóverkefni sínu JFDR.
Næst á dagskrá hjá Jófríði er að hennar sögn útgáfa nýrrar plötu 13. mars næstkomandi, sem hún mun halda upp á með útgáfutónleikum í Iðnó sama kvöld.
Platan ber titilinn New Dreams og hafa þrjú lög af henni þegar litið dagsins ljós.
„Ég hef verið í átaki síðustu misseri að gleyma ekki að kynna mér hvað er að koma út um þessar mundir,“ segir Jófríður aðspurð um lagavalið. „Playlistinn er samsettur af lögum sem komu öll út á síðasta ári, sum sátu mikið í mér, önnur eru lög sem ég er enn að kynnast.“