Körfubolti

Meira en 25 milljónir hafa dáðst á samanburðinum á troðslum Kobe og LeBron

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gegguð mynd af umræddri troðslu LeBron James.
Gegguð mynd af umræddri troðslu LeBron James. Getty/Andrew D. Bernstein

Sama íþróttahöll, sama lið, sama karfa. Nítján ár á milli. Troðsla LeBron James í leik með Los Angeles Lakers á móti Houston Rockets á dögunum varð enn merkilegri þegar glöggir menn fundu gamla troðslu með Kobe Bryant.

Kobe Bryant lést í þyrluslysi fyrir rúmum tveimur vikum síðan og síðan hefur bandaríska þjóðin og allur íþróttaheimurinn syrgt og heiðrað minningu þessa magnaða körfuboltamanns.

LeBron James hefur sjálfur gert það margoft síðan, bæði í orðum og verki, en í þessum leik á móti Houston Rockets gerði hann það á mjög táknrænan hátt.

Troðsla Kobe Bryant var frá leik Los Angeles Lakers í Staples Center 18. nóvember 2001 en liðið mætti þá Sacramento Kings.

Í báðum troðslum vann Los Angeles Lakers liðið boltann og í báðum tilfellum fengu þeir Kobe Bryant og LeBron James beina leið upp að körfunni. Troðsla James var nákvæmlega eins og sú hjá Kobe eins og sjá má hér fyrir neðan.



LeBron James sagðist þó ekki hafa farið inn í leikinn á móti Houston Rockets með það markmið að leika þessa troðslu eftir en viðurkenndi þó að hann hafi séð þessa Kobe Bryant troðslu mjög oft á sínum tuttugu ára ferli í NBA.

„Ég tók ekki ákvörðun um hvað ég ætlaði að gera fyrr en í stökk upp. Ég stökk upp og þá skaut niður í huga minn hversu klikkað væri að gera alveg eins troðslu og Kobe,“ sagði LeBron James.

„Okkar frábæra samfélagsmiðla lið setti þetta saman og ég hugsaði: Þetta er virkilega, virkilega gott hjá þeim,“ sagði James.

Það hafa fleiri en 25 milljónir manna horft á myndbandið á Twitter-reikningi Los Angeles Lakers og það er því óhætt að segja að þetta samanburðarmyndband hafi slegið í gegn.



LeBron James rifjaði líka upp gamla körfuboltamynd í viðtölum eftir næsta leik á eftir þegar myndbandið var farið á flug á netmiðlum.

 

„Hefur þú séð myndina „The 6th Man,“ spurði LeBron James og bætti við: „Kobe kom niður, fór inn í líkamann minn og gaf mér þessa troðslu í hraðaupphlaupinu,“ sagði LeBron James.

Körfuboltamyndin „The 6th Man“ eða „Sjötti maðurinn“ er frá árinu 1997 og var með þá Marlon Wayans og Kadeem Hardison í aðalhlutverkum. Persóna Hardison, Antoine Tyler, deyr eftir að hafa fengið hjartaáfall í leik en snýr aftur til jarðar til þess að hjálpa bróður hans,  Kenny Tyler, leikinn af Wayans og liði þeirra.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×