Ísland vann öruggan 7-0 sigur á Úkraínu í lokaumferð 2. deildar B á HM kvenna í íshokkí í dag. Sigurinn þýðir að Ísland lendir í 2. sæti mótsins en keppt var á Akureyri.
Karítas Halldórsdóttir, markvörður Íslands, varði vel í upphafi leiks áður en íslenska landsliðið tók öll völd í leiknum. Það var þó ekki fyrr en í öðrum leikhluta sem íslenska liðið braut ísinn en þá litu alls fimm mörk dagsins ljós. Í loka leikhluta mótsins bætti liðið við tveimur mörkum og lokatölur því eins og stendur hér að ofan, 7-0.
Mörk Íslands skoruðu Sylvía Rán Björgvinsdóttir (2), Sunna Björgvinsdóttir, Kolbrún María Garðarsdóttir, Teresa Snorradóttir, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir og Hilma Bóel Bergsdóttir.
Þá var Sunna Björgvinsdóttir kosin besti leikmaður Íslands á mótinu en Silvía Rán var þó sá leikmaður mótsins sem kom að flestum mörkum, skoruðum eða lögðum upp.
Mbl.is greindi frá.

