Innlent

Leik Berglindar frestað vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar á Ítalíu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er markahrókur.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er markahrókur. vísir/Getty

Íslensk knattspyrnukona sem leikur með ítalska liðinu AC Mílan segir að þungt sé yfir fólki vegna kórónaveirunnar Covid-19 . Leik sem liðið átti að spila í morgun var frestað vegna veirunnar en leikmenn mega ekki yfirgefa húsnæði sín í dag.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir leikur með ítalska liðinu AC Mílan. Í morgun var leik liðsins gegn Fiorentina frestað vegna kórónaveirunnar Covid-19.

„Þegar við vöknuðum í morgun fengum við þau skilaboð að leik karlanna hafi verið aflýst og svo sömuleiðis okkar leik. Dagurinn byrjaði bara þannig,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

Leikmenn hafa fengið þau skilaboð að halda sig innandyra í dag.

„Við fengum plan sem við áttum að fylgja eftir. Við megum ekki fara út eða fara út að borða eða neitt. Við eigum að halda okkur innandyra í dag og svo verður talað betur við okkur á morgun,“ sagði Berglind.

Hún segir þungt yfir fólki vegna ástandsins á Ítalíu.

„Það voru allir frekar smeykir í morgun þegar við fengum þessar fréttir. Svo lásum við greinar á netinu um að tveir hafi látist á Ítalíu í gær vegna veirunnar þannig það er ekki létt yfir fólkinu en ekkert til að panikka yfir,“ sagði Berglind.

Ítölsk stjórnvöld hafa gripið til neyðaraðgerða til að bregðast við mestu útbreiðslu COVID19-veirunnar í Evrópu til þessa. Forsætisráðherra landsins kynnti áætlunina í gærkvöldi eftir að staðfest var að 79 hafi smitast af veirunni í landinu og tveir látist. Ferðafrelsi um fimmtíu þúsund íbúa Í Langbarða- og Venetohéraði á Norður-Ítalíu hefur verið skert verulega og fólk beðið um að halda kyrru fyrir heima.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×