Innlent

Dómur þyngdur yfir konu sem stakk tengdason sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Árásin átti sér stað á Akranesi í nóvember árið 2018.
Árásin átti sér stað á Akranesi í nóvember árið 2018. Vísir/Egill

Landsréttur þyngdi fangelsisdóm yfir konu á áttræðisaldri sem stakk tengdason sinn með hnífi á Akranesi í nóvember árið 2018 í fimm ár í dag. Konan var sakfelld fyrir tilraun til manndráps en læknar töldu að litlu hefði munað að afleiðingar árásarinnar yrðu enn verri.

Atburðirnir áttu sér stað þegar konan passaði börn dóttur sinnar á heimili hennar og tengdasonar konunnar á Akranesi 10. nóvember árið 2018. Konan er sögð hafa verið ölvuð, farið inn í svefnherbergi mannsins þar sem hann svaf og stungið hann með tæplega tuttugu sentímetra löngum hnífi. Maðurinn hlaut djúpan áverka rétt utan við rifbein.

Héraðsdómur Vesturlands dæmdi konuna í fjögurra ára fangelsi og til að greiða manninum rúmar 800.000 krónur í maí í fyrra. Saksóknarar kröfðust þess að refsing konunnar yrði þyngd við áfrýjun til Landsréttar. Refsing fyrir brot konunnar sé að lágmarki fimm ár og ekki hefði verið sýnt fram á atvik sem gætu réttlætt að farið væri niður fyrir þá lágmarksrefsingu.

Sjá einnig: Tengdamamman minnist tveggja bjóra en virðist hafa drukkið margfalt meira

Konan lýsti sig saklausa og hélt því fram að ósannað væri að hún hefði gert það sem hún var sökuð um.

Dómarar við Landsrétt féllust á sjónarmið saksóknara og þyngdu refsingu konunnar, sem var á 71.  aldursári þegar hún framdi brotið, í fimm ár. Frá refsingunni dregst sá tími sem hún sat í gæsluvarðhaldi.

Auk skaðabótanna þarf konan að greiða tæpa fimm og hálfa miljóna króna í sakarkostnað í héraði og eina og hálfa milljón í áfrýjunarkostnað málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×