Innlent

Mikið tjón á innanstokksmunum eftir vopnað rán

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á suðurnesjum, segir manninn hafa verið ógnandi.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á suðurnesjum, segir manninn hafa verið ógnandi.

Mikið tjón varð á innanstokksmunum eftir tilraun til vopnaðs ráns hjá úrsmið í Keflavík í dag. Glerborð sem hafa skartgripi til sýnis eru mölbrotin eftir að ungur karlmaður hjó í þau með öxi. Engan sakaði en starfsfólk kom sér strax í skjól.

Það var um klukkan hálf eitt í dag sem maðurinn réðst inn í verslunina. Hann var með öxi og í annarlegu ástandi að sögn vitna.

„Sem betur fer þá meiddist enginn og maðurinn náðist fljótlega eftir að þetta gerðist en það urðu talsvert miklar skemmdir í versluninni,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum. 

„Hann mun hafa verið með öxi sem hann notaði til að láta vaða á innanstokksmunum og var auðvitað að því er búast má við ógnandi,“ segir Ólafur Helgi. 

Maðurinn braut og bramlaði í versluninni og eru glerborð mölbrotin sem hafa úr og annan dýran búnað til sýnis.

Maðurinn var handtekinn og fluttur til yfirheyrslu. Ólafur vildi ekki gefa upp hvort hann hefði áður komið við sögu lögreglu.

Þrír starfsmenn voru inn í versluninni þegar maðurinn ruddist inn og segir Ólafur þau hafa brugðist hárrétt við með því að koma sér strax í skjól.

„Það er auðvelt að ímynda sér að líðanin hafi ekki verið sérlega góð,“ segir Ólafur Helgi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×