Innlent

Leik­skóladeild lokað vegna kórónu­veiru­smits barns

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Leikskólinn Hálsaskógur í Breiðholti.
Leikskólinn Hálsaskógur í Breiðholti. reykjavíkurborg

Uppfært kl. 13:30:

Þeir starfsmenn leikskólans Hálsaskógar og foreldrar sem talið var að kynnu að vera smituð af kórónuveirunni reyndust ósýkt. Þetta leiddu skimanir í ljós. Því er ekki talin þörf á að loka öllum leikskólanum, aðeins deild barnsins sem reyndist vera með staðfest kórónuveirusmit. Önnur á deildinni munu að sama skapi fara í fjórtán daga sóttkví. 

Upprunalegu fréttina má lesa hér að neðan

Leikskólanum Hálsaskógi í Breiðholti var lokað í dag. Barn á leikskólanum greindist með virkt kórónuveirusmit og var því brugðið á það ráð að láta foreldra allra 75 barnanna í Hálsaskógi sækja þau. Þá leikur jafnframt grunur á að starfsmaður sé smitaður.

Þetta segir Ásgerður Guðnadóttir leikskólastjóri í samtali við DV sem hún svo staðfestir í samtali við fréttastofu. Gengið sé út frá því að leikskólanum verði lokað í tvo daga.  Í bréfi hennar til foreldra segir Ásgerður að allir starfsmenn og börn sem eru á sömu deild og fyrrnefnt barn verði í sóttkví í tvær vikur.

Tvær aðrar deildir eru á leikskólanum og verða þær lokaðar þangað til að starfsmaðurinn sem óttast er að sé með virkt smit verður skimaður. Eftir skimun verði staðan endurmetin.

Samkvæmt upplýsingum á covid.is er óalgengt að börn undir 18 ára aldri smitist af kórónuveirunni. Þannig hafi aðeins tvö börn á aldrinum 0 til 5 ára verið sett í einangrun vegna smits í þessari bylgju faraldursins. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur að sama skapi sagt að rannsóknir á dreifingu sýkingarinnar hér innanlands sýni fram á að börn séu ekki aðeins ólíklegri til að sýkjast, heldur jafnframt ólíklegri til að smita út frá sér.

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×