Hollenska ríkisútvarpið, NPO, sem sér um að halda og senda út Eurovision 2020 hefur gert ráðstafanir fyrir keppnina vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta staðfesti ónefndur starfsmaður ríkisútvarpsins við hollensku fréttastofuna AD.
Í gær var tilkynnt að danska undankeppnin, Melodi Grand Prix 2020, verði haldin án áhorfenda vegna veirunnar. Þá hefur sænska ríkisútvarpið tilkynnt að lokakvöld undankeppni Melodifestivalen verði haldin með áhorfendum í salnum en fólk hefur verið beðið um að mæta ekki hafi það verið á áhættusvæðum á síðustu tveimur vikum.
Heimildarmaðurinn vildi ekki tilgreina hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar en ekki hefur verið rætt að aflýsa keppninni. Þá vildi hann ekki tilgreina hvort rætt hafi verið að halda keppnina án áhorfenda í salnum.
Þá sagði talsmaður Evrópusamtaka útvarpsstöðva að fylgst væri náið með þróun kórónuveirufaraldursins og að ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og heilbrigðisyfirvalda innanlands væri tekið alvarlega.
Fjöldi smitaðra í Hollandi er nú 128 og hefur sá fjöldi aukist verulega síðustu daga. Einn hefur látist þar í landi vegna veirunnar. Þá heldur fjöldi smitaðra í Evrópu allri að aukast og þá sérstaklega á Ítalíu en nú hafa 4.636 smit verið staðfest þar í landi og 197 dauðsföll.
Viðburðum víða um álfuna, þar á meðal í Hollandi og á Íslandi, hefur verið frestað, aflýst eða þeir haldnir án áhorfenda.
Þá sagði forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, að það væri óskynsamlegt að aflýsa keppninni vegna kórónuveirunnar.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)