Íslenska U18-landsliðið í íshokkí karla var tilkynnt í dag. Skömmu síðar kom hins vegar í ljós að ekkert yrði af þátttöku þess á HM í ár.
Alþjóðaíshokkísambandið tilkynnti í dag að vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefði verið ákveðið að aflýsa fjölda móta á vegum sambandsins. Þar á meðal er keppni í A-riðli 3. deildar HM, þar sem Ísland átti að spila, en leika átti í Istanbúl í Tyrklandi dagana 16.-22. mars. Íslensku strákarnir fara því ekki til Istanbúl, ekki frekar en leikmenn frá Ísrael, Mexíkó, Belgíu og Taívan sem einnig áttu að leika í riðlinum.
Alls var hætt við keppni í fjórum riðlum fyrir U18-landslið karla, og í tveimur riðlum A-landsliða kvenna. Íslenska kvennalandsliðið var gestgjafi B-riðils 2. deildar en því móti lauk um helgina á Akureyri og vann Ísland til silfurverðlauna.
Til stendur að A-landslið karla verði gestgjafi í B-riðli 2. deildar, og á mótið að fara fram 19.-25. apríl í Reykjavík. Í tilkynningu frá alþjóðaíshokkísambandinu í dag segir að staðan verði metin frá degi til dags varðandi möguleikann á að aflýsa þurfi mótum í apríl. Einnig á eftir að ákveða hvernig gestgjöfum móta sem þurft hefur að aflýsa verði bættur kostnaður sem þeir kunna að hafa ráðist í.
Íslenska U18-landsliðshópinn sem valinn var í dag, en fær ekki að keppa, má sjá hér.

