Körfubolti

LeBron James og Lakers menn frábærir á Kobe Bryant deginum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James þurfti bara að spila þrjá fyrstu leikhlutana þegar Los Angeles Lakers liðið rúllaði yfir Portland Trail Blazers í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt.
LeBron James þurfti bara að spila þrjá fyrstu leikhlutana þegar Los Angeles Lakers liðið rúllaði yfir Portland Trail Blazers í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt. Getty/Kevin C. Cox

Miami Heat varð þriðja liðið til að komast áfram upp úr fyrstu umferð úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt og bæði Los Angeles Lakers og Milwaukee Bucks eru í lykilstöðu eftir að þau komust í 3-1. Það er hins vegar allt jafnt í einvígi Houston Rockets og Oklahoma City Thunder eftir að Thunder jafnaði í nótt.

Los Angeles Lakers vann 135-115 sigur á Portland Trail Blazers og var þetta þriðji sigur liðsins í röð eftir að Portland liðið komst í 1-0 í einvíginu.

Leikurinn fór fram á Kobe Bryant deginum (24.8) og heiðruðu leikmenn Lakers hann fyrst með því að spila í sérstökum Mamba búningnum en svo með því að rúlla yfir Portland liðið.

LeBron James var rosalegur annan leikinn í röð en hann var með 30 stig og 10 stoðsendingar á þeim 28 mínútum sem hann spilaði. James settist endanlega á bekkinn í lok þriðja leikhluta þegar úrslitin voru ljós.

Anthony Davis var með 18 stig á 18 mínútum og Kyle Kuzma skoraði líka 18 stig en Lakers liðið var 80-51 yfir í hálfleik.

Það þótti mjög táknrænt á Mamba deginum að Lakers komst í 24-8 í leiknum en það eru einmitt númer Kobe Bryant.

Damian Lillard, aðalstjarna Portland Trail Blazers, var aðeins með 11 stig en hann fór af velli í þriðja leikhluta, meiddur á hné. Jusuf Nurkic var atkvæðamestur með 20 stig og 13 fráköst.

Giannis Antetokounmpo var með 31 stig, 15 fráköst og 8 stoðsendingar og Khris Middleton skoraði 18 af 21 stigi sínu í lokaleikhlutanum þegar Milwaukee Bucks vann 121-106 sigur á Orlando Magic og komst í 3-1 í einvígi liðanna. Nikola Vucevic var öflugur hjá Orlando með 31 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar.

Goran Dragic skoraði 23 stig og var með 14 stig og 19 fráköst þegar Miami Heat sópaði Indiana Pacers út úr úrslitakeppninni með sannfærandi 99-87 sigri. Tyler Herro var líka með 16 stig en þetta er í fyrsta sinn síðan 2016 sem Miami liðið kemst í gegnum fyrstu umferðina.

Miami Heat er þriðja liðið til að komast áfram en Boston Celtics og Toronto Raptors unnu einnig sín einvígi 4-0.

Spennan er aftur á móti í einvígi Houston Rockets og Oklahoma City Thunder en Thunder jafnaði metin í 2-2 með 117-114 sigri í nótt. Dennis Schroder skoraði 30 stig fyrir Thunder liðið í leiknum, Chris Paul var með 26 stig og Shai Gilgeous-Alexander bætti við 18 stigum og 12 fráköstum.

James Harden var með 32 stig, 15 stoðsendingar og 8 fráköst fyrir Houston en það dugði ekki til ekki frekar en 23 stig frá Eric Gordon og 21 stig frá Danuel House Jr.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×