Norðurál, sem rekur álverið á Grundartanga, segist reiðubúið til að ráðast í fjárfestingu sem næmi um fjórtán milljörðum íslenskra króna á Grundartanga, ef Landsvirkjun er til í að semja um nýjan raforkusamning sem væri til langs tíma, eða allt að tuttugu ára.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en núverandi samningur við Norðurál rennur út árið 2023.
Gunnar Guðlaugsson, forstjóri fyrirtækisins, segir í að kjörin yrðu þá að vera sambærileg meðalverði til stóriðjunnar á síðasta ári, eða um 23 Bandaríkjadalir á megawattsstund.
Gunnar segir í samtali við blaðið að unnið hafi verið að því í mörg ár að auka virði álframleiðslunnar á Grundartanga. Horft sé til þess að fara út í framleiðslu á svokölluðum álboltum og um leið og samningar lægju fyrir væri hægt að fara hratt af stað. Við þetta myndu skapast um 80 til 90 störf á byggingartímanum og síðan 40 varanleg störf.