Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram skýrslu um dánaraðstoð á Alþingi. Í skýrslunni er m.a. fjallað um þróun lagaramma í löndum þar sem dánaraðstoð er leyfð, um tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar í þeim löndum og hver reynslan hefur verið. Ekki er tekin afstaða til þess hvort heimila eigi dánaraðstoð í skýrslunni heldur er henni ætlað að vera grundvöllur frekari umræðu um efnið, að því er fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Í skýrslunni er einnig reifuð opinber umræða um dánaraðstoð í nokkrum löndum þar sem dánaraðstoð er ekki leyfð og um mögulegar lagabreytingar hvað það varðar, einkum hjá hinum Norðurlandaþjóðunum, í Þýskalandi og Kanada.
Í skýrslubeiðninni til heilbrigðisráðherra er óskað eftir umfjöllun um hvort tækt sé að gera viðhorfskönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar, annars vegar hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmdist íslenskum lögum. Í skýrslunni er slík könnun talin möguleg og jafnframt bent á að hugsanlega þyrfti einnig að kanna viðhorf almennings í þessu sambandi.
Skýrsluna má nálgast í heild hér.
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði skýrslubeiðnina fram. Ef marka má umsagnir þeirra við skýrslubeiðni Bryndísar á sínum tíma virðist þó ljóst að dánaraðstoð eigi ekki fylgi að fagna meðal heilbrigðisstétta. Embætti landlæknis lagðist þannig alfarið gegn því að Alþingi tæki málið til umfjöllunar árið 2018, umræðan um líknardráp ætti heima á vettvangi læknisfræðinnar.
Læknafélag Íslands er á sömu blaðsíðu í umsögn sinni. Félagið segist vera hluti af Alþjóðafélagi lækna sem telur líknardráp vera siðlaus og „hvetur aðildarfélög sín og lækna til að taka aldrei þátt i líknardrápi, jafnvel þó landslög leyfi slíkt,“ segir Læknafélagið.