Tólf manns hafa verið settir í sóttkví eftir að tvö ný kórónuveirusmit greindust á Ísafirði í dag. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða segir að unnið sé að smitrakningu með sýnatökum og mótefnamælingum.
Greint er frá smitunum í Facebook-færslu heilbrigðisstofnunarinnar í kvöld. Skammt er síðan tæplega tuttugu íbúar á hjúkrunarheimilinu Hlíf á Ísafirði voru settir í sóttkví eftir að einn þeirra greindist í fyrstu jákvæður fyrir veirunni. Við síðari sýnatöku reyndist sýni úr honum neikvætt.
Alls eru 95 manns í einangrun hér á landi vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Þá eru 720 manns í sóttkví samkvæmt tölum sem birtar voru á upplýsingavef almannavarna og landlæknis í dag.