Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, segist ekki hika við að nota ungu leikmennina í enska hópnum, eins og Mason Greenwood og Phil Foden, gegn Íslandi í Þjóðadeildinni á morgun.
Greenwood og Foden eru meðal sjö nýliða í enska landsliðshópnum. Þeir leika með Manchester-liðunum, United og City.
„Þú bjóst væntanlega ekki við svari við þessu,“ sagði Southgate og hló er hann var spurður á blaðamannafundi hvort Greenwood eða Foden myndu koma við sögu á morgun.
„Það sem ég vil segja er að miðað við það sem við höfum séð á æfingasvæðinu hikum við ekki við að nota neina af leikmönnunum í hópnum. Þess vegna voru þeir valdir en þú veist aldrei alveg hvernig leikmenn aðlagast og falla inn í hópinn. En þeir [Greenwood og Foden] eru meðal okkar ungu og spennandi leikmanna.“
Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, var einnig spurður út Greenwood og hrósaði honum í hástert.
„Hann hefur verið frábær,“ sagði Kane. „Strax frá fyrstu æfingu hefur verið augljóst að hann er með mikið sjálftraust og ekki hræddur við að skjóta á markið eða leika á menn. Það er það sem við viljum.“
Greenwood er yngsti leikmaðurinn í enska hópnum, aðeins átján ára. Hann lék 49 leiki með United í öllum keppnum á síðasta tímabili og skoraði sautján mörk. Foden, sem er tvítugur, lék samtals 38 leiki fyrir City á síðasta tímabili og skoraði átta mörk.