Lögregla á Suðurlandi handtók á þriðjudagskvöld karlmann sem farið hafði í óleyfi inn á heimili á Selfossi. Maðurinn reyndist erlendur verkamaður, nýkominn til landsins og átti að vera í sóttkví þegar hann var handtekinn á heimilinu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Suðurlandi var maðurinn drukkinn og hafði villst á húsum. Hann var handtekinn inni á heimilinu skömmu fyrir miðnætti á þriðjudag en var óviðræðuhæfur sökum ölvunar og færður í fangageymslu á Selfossi.
Þegar í ljós kom að maðurinn átti að vera í sóttkví voru lögreglumennirnir sem voru í samskiptum við hann sjálfir sendir í úrvinnslusóttkví. Maðurinn, sem verið hafði á landinu í um þrjá daga þegar hann var handtekinn, var þá sendur í sýnatöku en reyndist neikvæður fyrir kórónuveirunni.
Gert er ráð fyrir að manninum verði gert að greiða sekt fyrir brot á sóttvarnarlögum. Slík sekt getur numið tugum þúsunda króna. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu kom málið mjög illa við húsráðendur, sem voru heima þegar maðurinn fór inn á heimilið.