Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní innbyrti taugaeitrið novichok úr vatnsflösku sem hann drakk úr á hótelherbergi sínu í síberísku borginni Tomsk en ekki á flugvellinum í borginni líkt og áður var talið.
Þetta segja starfsmenn á vegum Navalní í myndbandi sem birt var á Instagram-síðu Navalní í morgun.
Navalní er nú á batavegi eftir að hafa verið byrlað taugaeitrinu novichok í síðasta mánuði. Hann veikist hastarlega um borð í flugvél á leið frá Tomsk til Moskvu. Vélinni var lent í Omsk og var hann þá fluttur á sjúkrahús. Honum var svo flogið til Þýskalands 22. ágúst, þar sem honum var haldið sofandi í öndunarvél í fjölda daga.
Navalní hefur sagt hafa í hyggju að snúa aftur til Rússlands þegar hann hefur náð fullum bata og halda stjórnmálalegri baráttunni sinni áfram.
Rússnesk stjórnvöld hafa verið sökuð um að bera ábyrgð á tilræðinu, en segja engar sannanir fyrir því að eitrað hafi verið fyrir Navalní. Þess í stað hafa verið varpaðar fram hugmyndum um að of stór lyfjaskammtur eða lágur blóðþrýstingur kunni að vera skýringin á ástandi Navalní.