West Bromwich Albion voru stigalausir þegar þeir fengu Chelsea í heimsókn í 3.umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.
Fyrri hálfleikurinn var hreint út sagt ótrúlegur þar sem staðan að honum loknum var 3-0, heimamönnum í vil.
Willy Caballero var ekki sannfærandi í marki Chelsea og ekki bættu klaufaleg mistök Thiago Silva úr skák fyrir gestina. Callum Robinson skoraði tvö mörk og Kyle Bartley eitt.
Frank Lampard gerði tvær breytingar í leikhléi og Chelsea tókst að snúa leiknum í jafntefli. Mason Mount skoraði á 55.mínútu og Callum Hudson-Odoi minnkaði muninn í 3-2 á 70.mínútu. Tammy Abraham jafnaði svo metin í uppbótartíma venjulegs leiktíma.
Chelsea með fjögur stig eftir þrjá leiki en WBA nú komið á blað.