Íslenski boltinn

KFS komið upp í 3. deild að nýju

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson er spilandi þjálfari KFS en á að baki fjölda leikja með ÍBV sem og 24 leiki fyrir íslenska A-landsliðið.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson er spilandi þjálfari KFS en á að baki fjölda leikja með ÍBV sem og 24 leiki fyrir íslenska A-landsliðið. Vísir/Facebook-síða KFS

KFS frá Vestmannaeyjum er komið upp í 3. deild karla í knattspyrnu eftir nauman 1-0 sigur á Hamri frá Hveragerði í dag. Liðið lék síðast í 3. deild árin 2015 og 2016 en féll síðara árið með aðeins sex stig í 18 leikjum. 

Leikur dagsins fór fram á Grýluvelli í Hveragerði og voru gestirnir frá Vestmannaeyjum í góðri stöðu eftir að hafa landað sigri í uppbótartíma í fyrri leik liðanna. Leiknir eru tveir leikir, heima og að heiman, í úrslitakeppni 4. deildar.

Til að komast í úrslitakeppnina þarf að enda í efstu tvemur sætum þess riðils sem liðið er í en alls eru fjórir riðlar. Svo eru 8-liða og undanúrslit í kjölfar úrslitaleiks sem skiptir í raun litlu máli þar sem bæði lið eru komin upp.

Segja má að KFS hafi leikið Suðurlandið grátt en þeir flengdu KFR í 8-liða úrslitum. Vann KFS einvígið samtals 7-2. Við tók hörkuleikur gegn Hamri í Eyjum sem heimamenn unnu undir lokin sem og leik dagsins. 

KFS vann einvígið því 2-0 og leikur verðskuldað í 3. deild að ári.

Nokkur þekkt nöfn eru í liði KFS en gömlu brýnin Ian David Jeffs – aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins – er til að mynda í liðinu. Gunnar Heiðar Þorvaldsson er spilandi þjálfari og þá er varnarmaðurinn knái Matt Garner þarna einnig. Saman eiga þeir yfir 500 leiki að baki fyrir ÍBV í deild og bikar.

Í kvöld fer fram síðari undanúrslitaleikur 4. deildarinnar en þar mætast ÍH og Kormákur/Hvöt í Skessunni í Hafnafirði. Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli og því allt undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×