Íslensk auglýsingastofa er nú með lögsókn í undirbúningi vegna keppni og aðdraganda kynningarherferðarinnar „Ísland saman í sókn“ sem ráðist var í eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á.
Frá þessu segir í Morgunblaðinu, en auglýsingastofan, sem ekki er nafngreind, tók þátt í keppni auglýsingastofa um að annast herferðina, en varð ekki fyrir valinu. Telur auglýsingastofan að um brot á lögum um opinber innkaup hafi verið að ræða, en alls varði ríkið 1,5 milljörðum króna í verkefnið.
Alþjóðlega auglýsingastofan M&C Saatchi fékk á vordögum hæstu einkunn valnefndar, fékk verkið, og annaðist kynningarherferðina ásamt íslenskum samstarfsaðila, Peel.

Í heildina bárust fimmtán tilboð í verkefnið sem boðið var út á evrópska efnahagssvæðinu, en markmið herferðarinnar var að auglýsa Ísland sem áfangastað.
Herferð M&C Saatchi gekk út á að fá fólk til að ferðast til að koma til Íslands, öskra, og losa þannig við streitu. Birtust þar myndir af gulum hátölurum í íslenskri náttúru þar sem öskrin, sem send voru inn á vefnum, voru spiluð.