Bandaríski rithöfundurinn og ljóðskáldið Louise Glück hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels í ár. Verðlaunin fær hún fyrir „augljósa skáldlega rödd sem gerir tilvist einstaklingsins algilda með íburðarlausri fegurð“.
Sænska akademían greindi frá þessu á blaðamannafundi sem hófst klukkan 11.
BREAKING NEWS:
— The Nobel Prize (@NobelPrize) October 8, 2020
The 2020 Nobel Prize in Literature is awarded to the American poet Louise Glück for her unmistakable poetic voice that with austere beauty makes individual existence universal. #NobelPrize pic.twitter.com/Wbgz5Gkv8C
Glück fæddist í New York árið 1943 og ólst upp á Long Island. Hún er talin eitt áhrifamesta ljóðskáld samtímans í Bandaríkjunum. Hún hefur í verkum sínum mikið fjallað um misheppnuð ástar- og fjölskyldusambönd.
Nýjasta bók hennar, Faithful and virtuous night, kom út árið 2014, og hlaut á sínum tíma verðlaunin National book award. Árið 2012 gaf hún út bókina Poems 1962-2012. Fyrsta ljóðabók hennar, Firstborn, kom út árið 1968. Hún hlaut Pulizer-verðlaunin árið 1993 fyrir The Wild Iris, eða Villtu sverðliljuna.
Á síðasta ári voru veitt tvenn verðlaun í flokknum, fyrir árin 2018 og 2019, þar sem engin verðlaun voru afhent árið 2018. Féllu verðlaunin í skaut hinnar pólsku Olga Tokarczuk og hins austurríska Peter Handke.