Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í Holstebro unnu fjögurra marka sigur á liði Árhúsa í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 33-29 og Holstebro komið upp í 4. sæti deildarinnar eftir tvo sigra í röð.
Óðinn Þór hefur oft verið iðnari við kolann en hann skoraði aðeins eitt mark í leik kvöldsins úr eina skotinu sem hann tók. Markahæstir í liði Holstebro voru þeir Christoffer Cichosz og Kay Evert Smits með sjö mörk hvor.
Holstebro á leik til góða á Mors-Thy sem er í 3. sæti og gæti jafnað það að stigum vinni það leikinn sem það á inni.