Teitur Örlygsson og Sævar Sævarsson voru gestir Kjartans Atla Kjartanssonar í Körfuboltakvöldi í gær og fóru þeir félagar um víðan völl.
Þar rifjuðu þeir meðal annars upp að tæp 20 ár eru liðin frá einu ótrúlegasta tölfræðiafreki í íslenskum körfubolta en það vannst á Sauðárkróki árið 2001 þar sem Brenton Birmingham fór fyrir liði Njarðvíkur sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum það árið.
Brenton Birmingham náði fjórfaldri tvennu í fjórða og síðasta leiknum á móti Tindastóli þegar hann var með 28 stig, 11 stoðsendingar, 10 fráköst og 10 stolna bolta í 96-71 sigri Njarðvíkinga.
Teitur spilaði einnig þennan leik og lék marga leiki með Brenton Birmingham en Brenton ílengdist hér á landi, fékk íslenskan ríkisborgararétt og spilaði fyrir íslenska landsliðið í körfubolta. Hann starfar nú fyrir körfuknattleiksdeild Njarðvíkur.
Í Körfuboltakvöldi fóru þeir ítarlega yfir frábæran feril Brenton hér á landi en innslagið í heild má sjá hér ofar í fréttinni.