Liverpool getur teflt fram þeim Sadio Mané og Thiago Alcantara í nágrannaslagnum við Everton um næstu helgi.
Spánverjinn Thiago Alcantara og Senegalinn Sadio Mané greindust báðir með kórónuveiruna á dögunum en þeir hafa báðir náð sér að fullu og eru byrjaðir að æfa á nýjan leik með Liverpool liðinu.
Thiago Alcantara missti af tveimur deildarleikjum, á móti Arsneal og Aston Villa en Sadio Mané missti af fyrrnefndum leik á móti Aston Villa sem tapaðist 7-2.
Báðir sýndu þeir flotta takta þegar þeir klæddust Liverpool treyjunni síðast.
Thiago náði að gefa 75 heppnaðar sendingar í einum hálfleik á móti Chelsea sem er það mesta í einum hálfleik í sögu þeirrar tölfræði í ensku úrvalsdeildinni.
Sadio Mané skoraði fyrsta markið í 3-1 sigrinum á Arsenal og hafði áður skorað bæði mörkin í sigrinum á Chelsea á Stamford Bridge. Liverpool er búið að vinna alla þrjá leikina sem Sadio Mané hefur spilað í deildinni á þessari leiktíð.
Þeir Thiago Alcantara og Sadio Mané fóru líka ekki í landsliðsverkefni Spánar og Senegal í þessum glugga vegna veikindanna. Landsliðsglugginn var aftur á móti ástæðan fyrir því að þeir félagar misstu ekki af fleiri leikjum.
Naby Keita var sá síðasti af leikmönnum Liverpool sem greindust með kórónuveiruna en hann spilaði leikinn á móti Aston Villa. Keita mun væntanlega missa af Everton leiknum.
Leikur Liverpool og Everton fer fram í hádeginu á laugardaginn kemur en leikurinn er á Goodison Park, heimavelli Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga í Everton.
Hér fyrir neðan má sjá þegar Liverpool tilkynnti það á samfélagsmiðlum sínum að þeir Sadio Mané og Thiago Alcantara væru komnir til baka. Hér fyrir ofan eru líka glæsileg tæknitilþrif hjá Spánverjunum.