Stjórnvöld í Taílandi ákváðu í morgun að aflétta neyðarástandi sem sett var í síðustu viku til að reyna að bæla öldu mótmæla sem gengið hefur yfir landið síðustu mánuði.
Neyðarlögin gerðu lítið annað en að hella olíu á eldinn og fjölgaði aðeins í hópi mótmælenda, þrátt fyrir algert bann við hópamyndun en samkvæmt lögunum máttu ekki fleiri en fjórir koma saman í einu.
Mótmælendur hafa hrópað slagorð gegn ríkisstjórninni og þá hefur konungdæmið einnig verið gagnrýnt, en slíkt er bannað með öllu í landinu.
Forsvarsmenn mótmælanna segja að ekki sé nóg að hætt sé við neyðarlögin, heldur verði forsætisráðherrann að víkja hið snarasta.
Tugir mótmælenda hafa verið handteknir í aðgerðum lögreglu síðustu vikurnar en fólkið heldur því fram að forsætisráðherra landsins hafi haft rangt við í síðustu kosningum til að halda völdum.
Þá er konungdæmið sakað um að styðja við bakið á hernum í landinu, sem öllu ræður og krefst fólkið þess að völd konungs verði minnkuð til muna.