Varnarmálaráðherra Frakklands segir að rúmlega fimmtíu hryðjuverkamenn hafi fallið í loftárásum franska hersins í Malí í síðustu viku. Þá hafi fjórir verið teknir til fanga. Ráðherrann segir aðgerðir franska hersins mikið áfall fyrir hryðjuverkasamtökin al-Qaeda.
Varnarmálaráðherrann Florence Parly greindi frá aðgerðunum í morgun og sagði að mikið magn vopna hafa verið gert upptækt og um þrjátíu mótorhjól hryðjuverkamanna verið eyðilögð í árásunum.
Loftárásirnar áttu sér stað á svæði nærri landamærunum að Búrkína Fasó og Níger þar sem malískar hersveitir hafa lengi átt í átökum við sveitir íslamskra hryðjuverkamanna með tengsl við al-Qaeda.
Franski herinn er með um fimm þúsund hermenn staðsetta í heimshlutanum, en Malí var frönsk nýlenda frá byrjun tuttugustu aldar og þar til Malí varð sjálfstætt árið 1960.