Erlent

Trufluð af karli þegar hún var spurð út í upp­­lifun sína sem kona á þingi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Anne Ruston og Scott Morrison.
Anne Ruston og Scott Morrison. Rohan Thomson/Getty

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur verið gagnrýndur eftir að hann greip fram í fyrir Anne Ruston, fjölskyldu- og félagsmálaráðherra landsins, þegar hún ætlaði að svara spurningu fréttamanns um upplifun hennar af þingstörfum sem kona, á fréttamannafundi í dag.

Spurningin sneri að því að hvort Ruston teldi að þingmenning hefði batnað þegar kæmi að viðhorfum og viðmóti gagnvart konum, eftir að þáverandi forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, á banni við kynferðislegum samböndum milli ráðherra og starfsmanna þingsins árið 2018.

Hún komst þó ekki langt með að svara þar sem Morrison greip orðið þegar hún var rétt byrjuð að svara. Morrison gagnrýndi orðnotkun fjölmiðla í tengslum við bannið, en það að hann hafi gripið fram í fyrir Ruston á þessari stundu hefur vakið langt um meiri athygli heldur en það sem hann sagði. Atvikið má sjá hér að neðan.

Eftir að Morrison hafði lokið máli sínu fékk Ruston að svara spurningunni, og sagðist hún hafa fundið fyrir miklum stuðningi allan sinn tíma á þingi.

Fréttir af kynferðislegu ofbeldi þingmanna Frjálslynda flokksins skóku á dögunum ástralskan þingheim. Meðal þeirra sem hafa verið sakaðir um að áreita konur er Christian Porter, dómsmálaráðherra. Hann hefur neitað ásökununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×