Handbolti

Arnar Birkir hafði betur í spennandi Íslendingaslag

Ísak Hallmundarson skrifar
Arnar Birkir Hálfdánarson.
Arnar Birkir Hálfdánarson. vísir/vilhelm

EHV Aue vann 28-27 sigur á SG Bietigheim í Íslendingaslag í annari deild á Þýskalandi í handbolta. 

Arnar Birkir Hálfdánarson sem leikur með sigurliðinu skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum en Aron Rafn Eðvarðsson stóð vaktina í markinu hjá Bietigheim og varði sjö skot í leiknum.

Gestirnir í Bietigheim byrjuðu betur og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins. Heimamenn í Aue unnu sig inn í leikinn og var staðan í hálfleik jöfn, 13-13.

Aue náði mest fjögurra marka forystu í stöðunni 25-21 en undir lok leiksins náðu leikmenn Bietigheim að gera þetta spennandi og jafna metin í 27-27 þegar innan við mínúta var eftir. Maximilian Lux skoraði síðan sigurmarkið fyrir Aue en hann var með níu mörk í leiknum.

Góður sigur hjá Arnari og félögum í spennandi leik. Þeir eru nú komnir með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina en Aron og félagar í Bietigheim eru með tvö stig úr þremur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×