Íslenska landsliðið leikur með sorgarbönd í leiknum við England á Wembley í Þjóðadeildinni annað kvöld til minningar um föður Eriks Hamrén landsliðsþjálfara.
Per Hamrén, faðir Eriks, lést að kvöldi 15. nóvember, sama kvöld og Ísland mætti Danmörku á Parken í Kaupmannahöfn.
Íslenska liðið leikur með sorgarbönd gegn Englendingum í leiknum annað kvöld til að votta Erik og fjölskyldu hans samúð sína.
A landslið karla leikur með sorgarbönd í leiknum við England á Wembley til að votta þjálfara íslenska liðsins, Erik Hamrén og fjölskyldu hans samúð sína. Faðir Eriks, Per Hamrén, lést að kvöldi 15. nóvember, sama kvöld og íslenska liðið lék við Dani á Parken. pic.twitter.com/aibj1j6N7z
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) November 17, 2020
Hamrén stýrir íslenska landsliðinu í 25. og síðasta sinn gegn Englandi á morgun. Á laugardaginn tilkynnti hann að hann myndi ekki halda áfram með íslenska liðið. Hann tók við því haustið 2018.
Leikurinn á morgun er jafnframt síðasti leikur Íslands í A-deild Þjóðadeildarinnar í bili. Íslenska liðið er fallið í B-deild keppninnar og leikur þar í næstu útgáfu hennar.