Erlent

Rúmlega fjórar milljónir hafa smitast í Bandaríkjunum í nóvember

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn í Los Angeles í Bandaríkjunum fylgjast með endurlífgunartilraunum á Covid-19 sjúklingi.
Heilbrigðisstarfsmenn í Los Angeles í Bandaríkjunum fylgjast með endurlífgunartilraunum á Covid-19 sjúklingi. AP/Jae C. Hong

Heildarfjöldi þeirra sem smitast hafa af Covid-19 í Bandaríkjunum í nóvember fór yfir fjórar milljónir í gær. Í október smituðust 1,9 milljónir manna. Óttast er að ástandið muni versna verulega vegna mikilla ferðalaga Bandaríkjamanna í tengslum við Þakkargjörðahátíðina og mikillar mannmergðar í verslunum.

Milljónir manna fóru gegn ráðleggingum heilbrigðisstarfsmanna og sérfræðinga fyrir helgina og lögðu land undir fót. Heilbrigðisstarfsmenn hafa lýst yfir miklum vonbrigðum með landa sína í fjölmiðlum vestanhafs.

Að meðaltali hafa rúmlega 170 þúsund manns greinst smitaðir á dag í Bandaríkjunum að undanförnu. Frá upphafi faraldursins hafa 13,2 milljónir manna smitast af Covid-19 í Bandaríkjunum, svo vitað sé og rúmlega 266 þúsund hafa dáið.

Ástandið er hvergi verra í heiminum og hafa fregnir borist af miklum erfiðleikum á sjúkrahúsum í Bandaríkjunum. Í gær voru rúmlega 91 þúsund manns lagðir inn á sjúkrahús og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Útlit fyrir mikla dreifingu

Sé litið til talna um fjölda dauðsfalla er útlit fyrir að veiran sé mjög dreifð um Bandaríkin. Heilt yfir hefur dánartíðni farið lækkandi og þá að miklu leyti vegna þess að heilbrigðisstarfsmenn hafa lært dýrmætar lexíur hvernig meðhöndla á Covid-19.

Á miðvikudaginn dóu þó um 2.300 manns í Bandaríkjunum og hafði sú tala ekki verið hærri frá því í maí. Í öllum Bandaríkjunum voru þó einungis þrjár sýslur sem tilkynntu fleiri en tuttugu dauðsföll og er það til marks um útbreiðslu veirunnar.

Sérfræðingar óttast hvað muni gerast eftir tvær vikur og eru hræddir um að heilbrigðisstofnanir víðs vegar um Bandaríkin muni jafnvel kikna undan álaginu sem gæti myndast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×