Southampton var 2-0 yfir í hálfleik gegn United í gær en missti forskotið niður í seinni hálfleik. Edinson Cavani breytti gangi mála fyrir United. Úrúgvæinn, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.
Hasenhüttl fannst leikmenn United fagna sigrinum full innilega og Austurríkismaðurinn sagði að Southampton ætti að líta á það sem hrós.
„Þú heyrir þá fagna í búningsklefanum. Þú veist hversu góður þú ert því þeir fagna eins og þeir hafi orðið Englandsmeistarar. Það er ákveðin yfirlýsing því þetta var erfiður leikur,“ sagði Hasenhüttl í leikslok.
„Þeir þurftu að spila sinn besta leik til að vinna okkur og við getum verið stoltir af frammistöðu okkar. Við áttum frábær augnablik í þessum leik og ég er mjög sáttur við hvernig við spiluðum. Tvö tvö hefði verið í lagi fyrir okkur en síðan fengum við á okkur þriðja markið. Við spiluðum eins vel og við gátum í dag.“
Southampton er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sautján stig, einu stigi á undan United sem er í 7. sætinu en á leik til góða. Næsti leikur Southampton er suðurstrandarslagur gegn Brighton mánudaginn 7. desember.