„Víðir er að upplifa smá bakslag eins og svo margir sem hafa fengið Covid tengja við. Hann var kallaður inn á Covid-göngudeildina í tékk. Hann er kominn með þetta aðeins í lungun. Hann ber sig vel,“ segir Rögnvaldur.
Hann hafi fengið íferð í lungun og hafi verið að fá meðferð vegna þessa. Hann sé kominn aftur heim til sín eftir skoðun og áfram verði fylgst vel með honum.
„Hann er nokkuð brattur. Hann svo sem kvartar nú aldrei og ber sig nokkuð vel.“

Rögnvaldur telur marga sem hafa veikst eða þekkja til fólks sem hafi smitast af Covid-19 vita hve misjafnlega sjúkdómurinn leggist á fólk. Víðir virðist tilheyra þeim hópi sem veikindin leggist frekar illa á.
„Hann er gulur núna. Covid-göngudeildin heldur rosalega vel utan um alla sem eru að glíma við Covid. Flokka fólk sem grænt, gult eða rautt. Fylgst er af og til með grænum en þeim gulu er mun betur fylgst með. Svo geta þeir breyst í rauða og þá er yfirleitt búið að leggja fólk inn.“
Tíu dagar frá greiningu
Víðir fór í sóttkví þann 23. nóvember eftir að kona hans greindist með Covid-19. Sólarhring síðar kom í ljós að hann var sjálfur með sjúkdóminn. Hann hefur síðan verið í einangrun. Var líðan hans góð framan af en versnaði svo.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði Víði aðeins hressari þann 28. nóvember. Hann væri í reglulegu sambandi við hann.

Víðir var töluvert veikur daginn á undan. „Já, það var ekki góður dagur í gær,“ sagði Rögnvaldur í samtali við fréttastofu þann 28. nóvember.
„Ég heyrði í honum í gærkvöldi og þá var hann aðeins farinn að hressast og svo aftur í morgun, þá leið honum mun betur en í gær.“
Síðan er liðin vika og greinilegt að líðan Víðis hefur farið töluvert versnandi.
Víðir hefur verið í eldlínunni í kórónuveirufaraldrinum sem hluti af þríeykinu svokallaða sem hann skipar ásamt Ölmu Möller landlækni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.
Fréttin hefur verið uppfærð.