Erlent

John­son og Von Der Leyen funda vegna Brexit-patt­stöðu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Boris Johnson og Ursula Von Der Leyen munu funda í dag vegna samningsgerðar fríverslunarsamnings Bretlands og Evrópusambandsins. Pattstaða hefur myndast í samningsgerðinni en samningsteymi hafa fundað linnulaust undanfarna viku.
Boris Johnson og Ursula Von Der Leyen munu funda í dag vegna samningsgerðar fríverslunarsamnings Bretlands og Evrópusambandsins. Pattstaða hefur myndast í samningsgerðinni en samningsteymi hafa fundað linnulaust undanfarna viku. Getty/Peter Summers

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Ursula Von Der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, munu funda síðar í dag og er markmið fundarins að leysa úr pattstöðunni sem myndast hefur í samningsgerð fríverslunarsamnings sem taka á gildi eftir að Bretland gengur formlega úr ESB um áramót.

Leiðtogar samningsteyma beggja hliða óskuðu eftir því að Johnson og Von Der Leyen myndu stíga inn í þar sem að samningsaðilum tókst ekki að leysa úr stórum deilumálum í vikunni. Samningsnefndirnar hafa fundað linnulaust undanfarna viku í Lundúnum.

Það verður æ ólíklegra að samningsaðilum takist að komast að samkomulagi áður en Bretland yfirgefur innri markað Evrópu þann 31. desember næstkomandi. Samkomulag hefur náðst á flestum sviðum en enn deila samningsaðilar um grundvallaratriði.

Sérstaklega er deilt um fiskveiðiheimildir, samkeppnislög og eftirfylgni samningsins sem nú er samið um.

Heimildamenn breska ríkisútvarpsins í samningsteymunum lýstu því yfir í vikunni að hverfandi líkur væru á því að samningar næðust fyrir áramót. Að sögn heimildamanns í samningsteymi Breta hafði Evrópusambandið bætt við nýjum atriðum í samninginn á síðustu stundu.


Tengdar fréttir

Líkur á að frí­verslunar­samningur náist hverfandi

Líkurnar á því að fríverslunarsamningur milli Bretlands og Evrópusambandsins náist áður en Bretland segir skilið við Evrópusambandið eru hörfandi. Þetta hefur breska ríkisútvarpið eftir heimildamanni sem er hátt settur hjá breskum stjórnvöldum.

Þýðingarmikil vika fyrir viðræðurnar

Samninganefndir Breta og Evrópusambandsins munu halda viðræðum sínum áfram í vikunni í von um að ná samningi. Bretar verða ekki aðilar að innri markaði Evrópusambandsins eftir áramót, en þeir yfirgáfu sambandið formlega þann 31. janúar síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×