„Þetta er sem sagt skrifstofuhótel. Þetta heitir Skúrin – samfélagsmiðstöð á Flateyri,“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Lýðskólans á Flateyri, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
36 aðilar stofnuðu einkahlutafélag um reksturinn síðastliðið sumar til að skapa sameiginlega vinnuaðstöðu.

„Eitthvað svona sameiginlegt rými. Fólk getur komið saman og unnið saman. Því að það eru svo margir hérna með allskonar hugmyndir sem þeir eru að vinna í og koma á koppinn. Stofna einhverskonar fyrirtæki eða félög.“
Auk Lýðskólans hafa þarna skrifstofu Lánasjóður sveitarfélaga, Ísafjarðarbær, bókhaldsþjónusta, hugbúnaðarfyrirtæki, sem og nokkrir einstaklingar. Þetta virðist vera lýsandi dæmi um störf án staðsetningar.

„Já, þetta er alveg þannig. Okkur langar til að fá fleiri og kannski fjölbreyttari flóru í atvinnulífið.
Það má eiginlega segja að Skúrin er nú þegar orðin stærsti vinnustaðurinn á Flateyri. Því við erum alveg tíu sem erum núna.
Við viljum gjarnan fá fleiri. Við höfum nokkur pláss í viðbót,“ segir Ingibjörg.
Einnig var fjallað um skrifstofuhótelið í þættinum Um land allt.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.