Afbrigðið fannst í tvítugum manni í Colorado sem hefur ekkert ferðast út fyrir landsteinana og því er óljóst hvernig hann smitaðist, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá.
Fleiri en nítján milljónir manna hafa nú smitast af veirunni í Bandaríkjunum og rúmlega 337 þúsund manns hafa látið lífið af hennar völdum, fleiri en í nokkru öðru landi.
Nýja afbrigðið virðist vera mun meira smitandi en önnur sem uppgötvast hafa en ekkert bendir til þess að það sé hættulegra eða að bóluefni vinni ekki á því.
Bólusetningar eru hafnar í Bandaríkjunum en Joe Biden verðandi forseti gagnrýndi í gær Donald Trump fráfarandi forseta og ríkisstjórn hans harðlega fyrir að standa sig illa í skipulagningu bólusetninga í landinu.
Til stóð að um áramót væri búið að bólusetja 20 milljónir manna í landinu en þeim hefur aðeins tekist að sprauta rétt rúmar tvær milljónir manna.