Sport

Kórónuveiran það erfiðasta í tuttugu ára stjórnartíð Levy

Anton Ingi Leifsson skrifar
Daniel Levy hefur tekið margar umdeildar ákvarðanir hjá Tottenham en hann segir að kórónuveiran sé það erfiðasta sem hefur komið í hans tuttugu ára tíð hjá félaginu.

Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, segir að kórónuveiran sé erfiðasta áskorunin sem hefur komið upp á tuttugu ára ferli hans hjá hvítklædda Lundúnarliðinu.

Tottenham lagði fram ársskýrslu sína í vikunni en þar kom í ljós að félagið náði í 460 milljónir punda í tekjur á síðustu leiktíð. Góður árangur í Meistaradeildinni skilaði væntanlega góðri summu í budduna.

„Við vitum að það getur verið óviðeigandi að setja fram þessar tölur á þessum tíma ársins þar sem margir einstaklingar og fyrirtæki eru á erfiðum tímum vegna veirunnar. Við erum hins vegar skyldugir til þess að skila þessu inn fyrir 31. mars,“ sagði Levy á heimasíðu félagsins.

„Við erum öll á tímum þar sem ríkir mikil óvissa; bæði í vinnunni og í einkalífinu. Ég hef eytt nærri tuttugu árum í að byggja upp þetta félag og það hafa verið margar hindranir en enginn af þessari stærðargráðu. COVID-19 heimsfaraldurinn er það erfiðasta af þessu öllu.“

„Heilsa leikmanna, þjálfara, stuðningsmanna, styrktaraðila og fjölskyldu allra þeirra er í fyrsti sæti hjá okkur og við ættum að líta á þetta og koma sterkari út úr þessari veiru en nokkru sinni fyrr. Viljiði ver svo væn að hugsa um sjálfa ykkur. Þetta er mikilvægara en fótbolti,“ sagði Levy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×