Lífið

Bað kærustunnar í Iceland-verslun eftir að drauma­ferðinni til Ís­lands var af­lýst

Sylvía Hall skrifar
Bónorðið sem átti að vera á Íslandi varð að veruleika í Iceland-verslun.
Bónorðið sem átti að vera á Íslandi varð að veruleika í Iceland-verslun. Twitter/Iceland

Hinn 58 ára gamli Robert Ormsby bar upp bónorð við kærustu sína Patsy Murdoch í miðri Iceland-verslun í Tonbridge í Bretlandi. Þó svo að staðsetningin komi mörgum spánskt fyrir sjónir á hún sér eðlilegar skýringar.

Ormsby ætlaði nefnilega að biðja Murdoch á Íslandi. Þau höfðu skipulagt ferð hingað til lands og hafði hann áætlað að biðja hennar í Reykjavík. Ferðinni var þó aflýst á mánudag vegna kórónuveirufaraldursins sem skekur nú heimsbyggðina.

„Það er gaman að maður geti glatt einhvern með því að gera eitthvað sem var fyndin lausn á því sem við misstum af,“ sagði Ormsby í samtali við BBC um bónorðið. Hann hafi ákveðið að plata Murdoch inn í Iceland-verslunina undir því yfirskyni að hann þyrfti að grípa eitthvað með á leiðinni í kvöldmat.

Hann segir Murdoch fyrst hafa orðið örlítið vandræðalega en hún sagði að lokum já. Hún segist hafa grunað að hann myndi biðja hennar þetta kvöld, þar sem hann klæddi sig í jakkaföt fyrir kvöldverðinn, en bjóst við því að hann myndi gera það á veitingastaðnum.

„Ég hugsaði með mér: Hvað viltu gera í Iceland? Ég áttaði mig ekki á því fyrst en svo for hann niður á annað hnéð,“ sagði Murdoch sem þótti atvikið afar fyndið. Hún hafi um leið farið að hlæja.

Ormbsy starfaði áður hjá verslunarkeðjunni á níunda áratugnum en starfar nú sem hjúkrunarfræðingur. Hann segist vilja nota þá athygli sem fylgdi bónorðinu til þess að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem er unnið á sjúkrahúsum um allan heim um þessar mundir.

Samkvæmt Twitter-færslu Iceland er þó útlit fyrir að draumurinn um Íslandsferð sé ekki allur, en verslunarkeðjan segist ætla bjóða þeim í brúðkaupsferð hingað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×