Sport

Hringja í Rooney og vonast til þess að tímabilið verði flautað af svo Liverpool verði ekki meistari

Anton Ingi Leifsson skrifar
Wayne Rooney segir að Liverpool eigi titilinn skilið en Bítlaborgarliðið hefur beðið í 30 ár.
Wayne Rooney segir að Liverpool eigi titilinn skilið en Bítlaborgarliðið hefur beðið í 30 ár. vísir/getty/samsett

Þegar sjálfur Wayne Rooney, uppalinn hjá Everton og lék síðar með Manchester United, er byrjaður að tala um að Liverpool eigi titilinn skilið er ljóst að þeir rauðklæddu hafa spilað ansi vel á tímabilinu.

Rooney skrifar pistil í Sunday Times en þar fer hann yfir ensku úrvalsdeildina og málefni tengd henni. Hann skrifaði svipaðan pistil í síðustu viku þar sem hann vandaði stjórnarmönnum enska boltans ekki kveðjurnar.

„Liverpool mun vinna ensku úrvalsdeildina. Núna, eins og þið getið ímyndað ykkur, eru stuðningsmenn Everton að hringja í mig og segja: Það verður að blása tímabilið af. Og auðvitað, sem uppalinn Everton-maður og leikmaður Man. United til þrettán ára, þá er hluti af mér sem væri alveg til í það,“ skrifaði Rooney.

„En nei. Liverpool hefur verið frábært á tímabilinu. Þeir hafa lagt svo mikið á sig. Þeir eiga titilinn skilið. Geturðu ímyndað þér að bíða í 30 ár og svo væri þetta tekið af þeim? Rétta ákvörðunin hefur verið tekin,“ sagði Rooney um ákvörðunina að halda áfram með deildina.

„Þetta snýst líka um fall og liðin sem tryggja sig inn í Meistaradeildina. Þetta yrði mikið áfall fyrir þessi lið og það færu fullt af málum fyrir dómstóla ef tímabilið yrði flautað af. Eina rétta er að klára tímabilið - þrátt fyrir að það fari eitthvað inn á dagskrá næsta tímabils.“

„Það kæmi mér á óvart ef það tæki allt þangað til lok ársins að klára deildina. Fótboltinn er eins og aðrar greinar í mikilli óvissu og þurfa að hlusta á yfirvöld eins og aðrir. Það ætti hins vegar ekki að spila fyrir framan luktar dyr,“ sagði Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×