Fótbolti

Enska úr­vals­deildin á­nægð með notkunina á VAR

Anton Ingi Leifsson skrifar
VAR tekur ákvörðun í leik Southampton og Newcastle að dæma eigi vítaspyrnu. Stuðningsmenn Newcastle kátir á pöllunum.
VAR tekur ákvörðun í leik Southampton og Newcastle að dæma eigi vítaspyrnu. Stuðningsmenn Newcastle kátir á pöllunum. vísir/getty

Enska úrvalsdeildin er sögð ánægð hvernig hefur tekist til að innleiða VAR, myndbandsaðstoðardómara, í deildina og segir heimildarmaður innan ensku úrvalsdeildarinnar að þeir segist standa framar en aðrar deildir í Evrópu voru á sínu fyrsta tímabili með VAR.

VAR var tekið í gildi fyrir yfirstandandi tímabil, sem er þó í pásu vegna kórónuveirunnar, en tæknin hefur verið mikið gagnrýnd. Leikmenn, þjálfarar, stuðningsmenn, sparkspekingar og margir fleiri hafa lýst undrun sinni á notkuninni.

Það er þó ekkert sem forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar kippa sér upp við því menn innan veggja deildarinnar eru sagðir himinlifandi með notkunina.

„Það verða mistök þegar þú ert að setja eitthvað af stað í fyrsta skipti og ef þú lítur á okkur í samanburði við Ítalíu, Spán og MLS-deildina og hvar þau stóðu á sínu fyrsta tímabili þá erum við langt á undan þeim,“ sagði heimildarmaður við The Sun.

„Þetta er klárlega að virka. Allir dómararnir kaupa þetta og þeir vita nákvæmlega hvað er að gerast og hvað er ekki að gerast. Þetta verður ekki fullkomið. Það var aldrei sagt að þetta yrði 100% heldur bara að þetta myndi fjarlægja mistök sem það hefur nú þegar gert. Það hefur sýnt sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×