Körfubolti

Sonur Rodman frétti fyrst af Vegas ævintýrum pabba síns þegar hann horfði á „Last Dance“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Rodman tók upp á ýmsu á meðan ferlinum stóð og það hefur líka mikið gengið á síðan að körfuboltaskórnir fóru upp á hillu.
Dennis Rodman tók upp á ýmsu á meðan ferlinum stóð og það hefur líka mikið gengið á síðan að körfuboltaskórnir fóru upp á hillu. EPA/MIKE ALQUINTO

Dennis Rodman var stjarna síðustu helgar í „The Last Dance“ heimildarþáttunum á ESPN og þar kom ýmislegt fram í dagsljósið sem menn vissu ekki af.

Það sem vakti einna mesta athygli var þegar Dennis Rodman fékk leyfi til að fara til Las Vegas á miðju tímabilinu.

Rodman bað þá Phil Jackson þjálfara um 48 klukkustunda frí til að fá að sletta úr klaufunum. Fríið var reyndar talsvert lengra og endaði ekki fyrr en Michael Jordan bankaði á dyrnar og dró Rodman með sér aftur á æfingu.

Ævintýrið í Las Vegas var svo vel geymt leyndarmál að sonur Dennis Rodman vissi ekki einu sinni af því.

Dennis „DJ“ Rodman Jr., var í vetur á fyrsta ári í Washington State í bandaríska háskólaboltanum. Rodman eldri eignaðist hann með Michelle Moyer árið 2000 eða tveimur árum eftir „The Last Dance“ tímabilið með Chicago Bulls.

„Það eina sem ég vissi ekki var þetta frí sem hann fékk. Ég vissi ekki að maður kæmist upp með slíkt. Ég hafði ekki hugmynd um að þú gætir farið til þjálfara þíns og sagt: ‘Ég þarf að fá frí’,“ sagði Dennis Rodman yngri.

Sagan var mjög skemmtileg og furðuleg eins og Dennis Rodman er sjálfur. Ævintýrið endaði líka á epískan hátt eða með því að besti körfuboltamaður sögunnar bankaði á dyrnar hjá Rodman þegar hann og Carmen Electra lágu nakin á gólfinu.

Carmen Electra sagðist hafa þá stokkið á bak við sófann og reynt að fela sig. Jordan tók Dennis Rodman aftur á móti með sér á æfingu og Rodman áttaði sig loksins á því að hann var körfuboltamaður að atvinnu.

Dennis Rodman tók 15,0 fráköst að meðaltali í leik í deildarkeppninni þetta 1997-98 tímabil með Chicago Bulls en auk þess var hann með 4,7 stig og 2,9 stoðsendingar í leik.

Chicago Bulls liðið varð síðan meistari þriðja árið í röð um sumarið meðal annars þökk sé varnarleik og fráköstum Dennis Rodman.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×