Útkallið barst um klukkan fjögur í nótt en Ingvi Þór Hákonarson aðstoðarvarðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja segir í samtali við Vísi að ekki sé vitað hver eldsupptök eru. Eldurinn hafi verið mestur í kringum svaladyr á íbúðinni en hafi verið byrjaður að teygja sig inn í íbúðina.
Fólkið sem var inni í íbúðinni komst út af sjálfsdáðum og varð ekki meint af. Ingvi segir að slökkvistarf hafi tekið um klukkutíma en reykræsta þurfti íbúðina eftir að eldurinn var slökktur. Ekki þurfti að rýma aðrar íbúðir í húsinu en nokkrir íbúar komu sér þó út þegar þeir urðu varir við eldinn.
Að öðru leyti var nokkur erill í sjúkraflutningum hjá Brunavörnum Suðurnesja á nýársnótt, að sögn Ingva. Flutningarnir hafi þó ekki tengst flugeldaslysum heldur veikindum.
Hér fyrir neðan má sjá myndband Víkurfrétta frá vettvangi í nótt.