Handbolti

Byrjaði að verja eftir sýnikennslu í markvörslu frá Gumma Gumm

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson stóðu vaktina í íslenska markinu gegn Portúgal í gær.
Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson stóðu vaktina í íslenska markinu gegn Portúgal í gær. vísir/andri marinó

Ágúst Elí Björgvinsson átti góða innkomu í mark íslenska handboltalandsliðsins gegn því portúgalska í undankeppni EM 2022 í gær.

Ágúst Elí kom inn á fyrir Viktor Gísla Hallgrímsson í seinni hálfleik. Hafnfirðingurinn fór rólega af stað og náði sér ekki almennilega á strik fyrr en eftir að hafa fengið sýnikennslu í markvörslu frá landsliðsþjálfaranum Guðmundi Guðmundssyni.

Eftir að Miguel Martins kom Portúgal í 19-17 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik gekk Guðmundur til Ágústs Elís og sýndi honum hvernig hann ætti að bera sig að í markinu með miklum tilþrifum.

Þessi sýnikennsla Guðmundar hafði góð áhrif á Ágúst Elí sem hrökk í gang svo um munaði og varði sjö skot það sem eftir lifði leiks. Hafnfirðingurinn var með 44 prósent hlutfallsmarkvörslu og framlag hans var nálægt því að skila íslenska liðinu stigi.

„Já, ég vildi sýna honum hvernig ætti að taka boltann,“ sagði Guðmundur léttur í bragði við Vísi í dag. „Ég var aðeins að byrsta mig við hann, það hafði góð áhrif á hann. Ég vildi meira „agressívitet“ og það gekk bara vel,“ bætti hann við.

Portúgal vann á endanum tveggja marka sigur, 26-24, og hefur unnið alla þrjá leiki sína í undankeppni EM. Ísland er með tvö stig eftir tvo leiki.

Ísland og Portúgal mætast aftur á Ásvöllum á sunnudaginn í undankeppni EM og svo á HM í Egyptalandi á fimmtudaginn eftir viku.

Ágúst Elí er einn þriggja markvarða í íslenska HM-hópnum ásamt Viktori Gísla og Björgvini Páli Gústavssyni sem fór ekki með til Portúgals. Ágúst Elí lék með Íslandi á EM 2018 og HM 2019 en fór ekki á EM í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×