Í gær var greint frá því að Kim teldi nauðsynlegt að bæta samband ríkisins við umheiminn og hefur hann heitið því að gera það. Í dag sagði hann hins vegar að til þess að hægt væri að bæta samskipti Norður-Kóreu og Bandaríkjanna þyrftu Bandaríkin að breyta stefnu sinni gagnvart ríkinu.
Í frétt Reuters segir að sú stefna sé ólíkleg til að breytast, sama hver fari með embætti forseta.
„Það skiptir ekki máli hver hefur völdin í Bandaríkjunum, eðli Bandaríkjanna og grunnstefna þeirra gagnvart Norður-Kóreu breytist aldrei,“ sagði Kim á flokksþingi Verkamannaflokksins í Norður-Kóreu, sem staðið hefur yfir undanfarna fimm daga.
Hann hét því að styrkja tengsl við „and-heimsvaldasinna og sjálfstæð öfl.“
Kim bætti því við að ríkið muni ekki „misnota“ kjarnavopn sín en ríkið hefur hafið aukna framleiðslu og þróun á kjarnavopnum. Fjöldi nýrra vopna er nú í þróun, þar á meðal ýmiskonar flaugar og kjarnorkudrifnir kafbátar.