Egypski framherjinn hefur nú skorað fallegasta mark Liverpool fjórða mánuðinn í röð en enginn annar leikmaður liðsins hefur náð þessu á tímabilinu.
Nýjasta verðlaunmark Mohamed Salah var glæsilegt mark hans á móti Crystal Palace á Selhurst Park en það var valið fallegasta mark Liverpool í desember.
@MoSalah claimed our Goal of the Month award for the time in a row, after his clinical curler against @CPFC pic.twitter.com/rwuGJE6nTL
— Liverpool FC (@LFC) January 11, 2021
Mohamed Salah fékk ekki að byrja þennan leik á móti Crystal Palace en kom inn á sem varamaður og skoraði tvívegis í 7-0 sigri.
Markið sem fékk verðlaunin var frábært skot hans af rúmlega átján metra færi óverjandi upp í fjærhornið.
Stuðningsmenn Liverpool fengu að venju að velja fallegasta markið á Liverpoolfc.com og hlaut Salah flest atkvæði.
Roberto Firmino náði hins vegar bæði öðru og þriðja sætinu í kosningunni en þar var um að ræða sigurmark hans á móti Tottenham og fyrsta markið á móti Crystal Palace. Mark Georginio Wijnaldum á móti Wolverhampton Wanderers á Anfield endaði síðan í fjórða sæti.
Mohamed Salah hafði áður verið verðlaunaður fyrir mark sitt á móti Leeds United í september, mark sitt á móti Everton í október og loks mark sitt á móti ítalska félaginu Atalant í nóvember.