Þjóðvarðliðssveitir frá öllum landshlutum hafa verið sendar til Washington DC í von um að hægt verði að komast hjá banvænum óeirðum, líkt og fóru fram þann 6. janúar síðastliðinn þegar múgur réðst inn í þinghús Bandaríkjanna.
Alríkislögreglan, FBI, hefur varað fólk við því að stuðningsmenn Donalds Trumps séu líklegir til þess að vera vopnaðir á mótmælunum. Mikill viðbúnaður er í öllum 50 höfuðborgum ríkja Bandaríkjanna vegna þessa.
Vegatálmum hefur verið komið upp víða um Washington og löggæsluaðilar eru í viðbragðsstöðu.
Starfsmenn Bidens hafa hvatt fólk til þess að ferðast ekki til höfuðborgarinnar vegna kórónuveirufaraldursins og starfsmenn Hvíta hússins hafa beðið fólk um að horfa á innsetningarathöfnina, sem fer fram á miðvikudag, heima hjá sér í stað þess að mæta á staðinn.
Talið er að mikil mótmæli muni fara fram víða um Bandaríkin á morgun, sunnudag. Færslur á spjallborðum stuðningsmanna Trumps og öfgahægrihópa hafa hvatt til vopnaðra mótmæla þann 17. janúar auk vopnaðra mótmæla á innsetningardaginn, þann 20. janúar.
Einhverjir vopnaðir hópar hafa samkvæmt frétt BBC biðlað til meðlima sinna að taka ekki þátt í mótmælunum vegna mikils viðbúnaðar lögreglu og þjóðvarðliðs. Einhverjir hafa sagt mótmælin, sem skipulögð eru af stuðningsmönnum Trumps, gildru til þess gerða að narra stuðningsmenn hans.