Nálgast þarf slíkt vottorð hjá heilsugæslu en ólíkt hefðbundinni Covid-19 sýnatöku sem er endurgjaldslaus þurfa einstaklingar sem eru sjúkratryggðir á Íslandi að greiða 13.395 krónur til að útiloka sýkingu og fá afhent vottorð þess efnis.
Þá greiða erlendir ríkisborgarar án evrópska sjúkratryggingakortsins og einstaklingar sem eru ekki með fasta búsetu hér á landi og kennitölu 24.475 krónur. Þess fyrir utan getur kostnaðurinn breyst lítillega ef fólk nálgast vottorð utan dagvinnutíma eða þegar um er að ræða börn og eldri borgara.

SMS-skeyti nægir ekki eitt og sér
Ef horft er til þess að hægt er að tryggja sér flugsæti aðra leiðina til London í mars fyrir svo lítið sem 2.813 krónur þegar þetta er skrifað er ljóst að skimunargjaldið getur orðið hlutfallslega drjúgur kostnaðarauki fyrir ferðalanga. Fyrst var greint frá gjaldinu á ferðavefnum Túrista en þar var miðað við 15 þúsund króna fargjald Icelandair til London.
Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu eru SMS-skeyti með niðurstöðu ekki tekin gild í flestum löndum og því ekki vænlegt til árangurs að skrá sig frekar í hefðbundna sýnatöku hjá heilsugæslu til að reyna komast hjá gjaldtökunni.
Þess ber að geta að þeir farþegar sem einungis millilenda á flugvelli í Danmörku þurfa sömuleiðis að framvísa vottorði.