„Það er alltaf einhver sem er að meina þetta og er tilbúinn að fylgja því eftir,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Sprengisandi í morgun, þar sem hann ræddi meðal annars skotárásina á bíl borgarstjóra um síðustu helgi.
Hann bendir á að Íslendingar hafi að mestu verið lausir við hvers kyns ógnir. „Við skulum ekki vanmeta það hvað við höfum verið gæfusöm að það hafi ekkert slíkt gerst á Íslandi. Við höfum séð þetta í nágrannalöndunum. Þegar ég fer til Svíþjóðar fæ ég engan fæ ég engan afslátt af því frekar en aðrir ráðherrar, að það er lífvörður með mér allan daginn, og þú ferð ekkert án hans. Þú segir ekkert „ég vil ekki fá lífvörð“,“ segir Guðlaugur.
Guðlaugur fékk sjálfur líflátshótun í tengslum við þriðja orkupakkann árið 2019 og í framhaldinu var ósannindum dreift um hann. „Sagan fór eins og eldur í sinu og síðan þurfti maður að hlaupa strax til og reyna að leiðrétta hana,“ segir hann. „Jafnvel ef það gengur vel þá eru það svona 80 prósent sem sjá síðan leiðréttinguna og eftir standa 20 prósent.“
Hann nefnir netglæpi í þessu samhengi, sem sé ein helsta ógn sem nú steðji að fólki.
„Það eru sífelldar árásir. Bæði á okkar netkerfi og sömuleiðis varðandi að koma fölsum fréttum af stað. Þetta kemur frá ákveðnum ríkjum, að því er talið. Og þetta var ekkert minna í Covid. En þetta er partur af breyttum heimi. Þetta er ekkert í framtíðinni, þetta er núna,“ segir hann. „Þetta eru ógnirnar sem að okkur steðja núna.“