Fótbolti

Vildu ekki fá gervigras á völlinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir íslenskir knattspyrnumenn hafa spilað með Brann í gegnum tíðina og hér má sjá bæði Ólaf Örn BJarnason og Birki Má Sævarsson.
Margir íslenskir knattspyrnumenn hafa spilað með Brann í gegnum tíðina og hér má sjá bæði Ólaf Örn BJarnason og Birki Má Sævarsson. EPA/LAVANDEIRA JR

Það er ekki auðvelt að halda við grasvelli í Bergen og því langskynsamlegast að skipta yfir í gervigras. Yfirmönnum norska fótboltafélagsins Brann tókst þó ekki að sannfæra sitt fólk.

Gervigrasvöllum hefur fjölgað mikið á Íslandi síðustu ár og það lítur svo út að gervigras sé framtíðin fyrir fótboltavelli svo norðarlega á hnettinum. Fólkið hjá norska félaginu Brann er þó ekki á sömu skoðun.

Tillaga um að skipta yfir í gervigras á heimavelli Brann var felld á ársþingi norska félagsins.

Stjórn félagsins, framkvæmdastjórn og íþróttaforysta félagsins vildu öll fá gervigras en þingfulltrúar á ársþinginu voru ekki sammála

Tillaga stjórnarinnar var felld með 130 atkvæðum gegn 107.

Atkvæðagreiðslan fór fram eftir nokkra tíma fundarhöld þar sem stjórnsýslan hjá Brann reyndi að sannfæra þingfulltrúana um það að eina vitið væri að skipta yfir í gervigras til að bæta slæma æfingaaðstöðu félagsins.

Brann spilar í Bergen í vestur Noregi. Liðið er í norsku úrvalsdeildinni og endaði í tíunda sæti af sextán liðum á síðustu leiktíð.

Nú er ljóst að það verður áfram náttúrulegt gras á Brann Stadium.

Brann hefur verið mikið Íslendingalið í gegnum tíðina en þar hafa spilað íslenskir leikmenn eins og Birkir Kristinsson, Ólafur Þórðarson, Bjarni Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason, Stefán Þórðarson, Sævar Jónsson, Ágúst Gylfason, Ármann Smári Björnsson, Kristján Örn Sigurðsson, Bjarki Gunnlaugsson, Hannes Þór Halldórsson, Gylfi Einarsson, Birkir Már Sævarsson, Viðar Ari Jónsson og nú síðast Jón Guðni Fjóluson. Teitur Þórðarson hefur líka þjálfað liðið í tvígang.

Brann varð síðast norskur meistari árið 1997 en með liðinu spiluðu þá Ármann Smári Björnsson, Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason. Það var fyrsti titill félagsins í 44 ár.

Síðan hefur liðið farið niður í B-deildina (2015) en kom strax upp aftur og varð í öðru sæti 2016 og í þriðja sætið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×