Eftirlitsaðilar og mannréttindasamtök áætla að fleiri en tíu þúsund Rússar hafi verið handteknir við mótmæli vegna handtöku og fangelsunar Navalnís.
Við dómsuppkvaðninguna sagði Navalní að ásakanirnar gegn honum væru tilbúningur og til komnar vegna ótta og haturs Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, gagnvart sér.
Navalní hefur einnig sakað Pútín um að hafa látið eitra fyrir sér síðasta sumar, sem leiddi til þess að hann var fluttur í dái til Þýskalands. Hann var í gær dæmdur fyrir að brjóta gegn skilorði með því að fara til Þýskalands.
Sjá einnig: Útsendarar FSB sagðir hafa eitrað fyrir Navalní
Hann var handtekinn vegna þessa þegar hann sneri aftur til Rússlands þann 17. janúar.
Í lok desember var honum svo skipað að snúa aftur til Rússlands og var hann sakaður um að hafa brotið gegn skilorðsdómi, sem rann út um áramótin, með því að fara til Þýskalands.
Sá dómur á rætur sínar að rekja til ársins 2014 þegar hann var dæmdur fyrir þjófnað. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að það mál gegn Navalní hafi verið ólögmætt og gerræðislegt.
Sjá einnig: Saksóknarar segja fangelsiskröfu sanngjarna
Navalny, moments before he is sentenced to 3.5 years in prison, draws a heart (for his wife Yulia) on the glass separating him from the rest of the courtroom. pic.twitter.com/NSrtBnDSFL
— Piotr Zalewski (@p_zalewski) February 2, 2021
Í frétt Moscow Times þar sem farið er yfir atburðarás gærdagsins segir að þúsundir lögregluþjóna hafi verið sendir til að stöðva mótmæli eftir dómsuppkvaðninguna í gær. Þrátt fyrir það og að lestarstöðvum og götum hafi verið lokað fóru einhver mótmæli fram og víðast hvar mættu óreiðabúnir lögregluþjónar mótmælendum af mikilli hörku.
Sjá einnig: Meira en þúsund manns handteknir í mótmælum í Rússlandi
Dimítrí Peskov, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, lýsti aðgerðum lögreglu sem hörðum en réttlætanlegum.
Really grim, Belarus-esque scenes in Moscow tonight. Protesters put up their hands to show they were peaceful, and riot police started beating them viciously. Really sadist stuff.
— max seddon (@maxseddon) February 2, 2021
video via @tvrain and the fearless @mborzunova pic.twitter.com/eVhMgRY5ng
Rannsakandi mannréttindasamtakanna Human Rights Watch í Rússlandi segir í samtali við Moscow Times að það sé ekki rétt metið hjá Peskov. Viðbrögð lögreglu hafi engan veginn verið í takt við hegðun mótmælenda.
Svo margir hafa verið handteknir að undanförnu að fangaklefar í Moskvu hafa fyllst og yfirvöld hafa ferjað fólk í rútum í bæi nærri höfuðborginni þar sem þau hafa verið færð fyrir dómara.
Eins og áður segier hafa yfirvöld í vesturlöndum fordæmt dóm Navalnís og þá hörku sem yfirvöld hafa beitt gegn mótmælendum í Rússlandi. Þeirra á meðal er Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hafnaði í dag því alfarið að gagnrýni þessi væri réttmæt og sagði hana hrokafulla og óviðeigandi. Þá sagði ráðherrann að Rússar myndu ekki bregðast við svona „móðursýki“.