Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að með þessu skrefi sé verið að skjóta styrkari lagastoðum undir þær sóttvarnaráðstafanir sem verið sé að beita í faraldrinum. Verið sé að tryggja betur réttindi borgara og skýra með afgerandi hætti þau hugtök og ráðstafanir sem verið er að beita.
„Það er afar mikilvægt hvað alþingi hefur sýnt mikla samstöðu, yfirvegun og málefnalega úrvinnslu í þessu flókna máli,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, á Alþingi í dag.
Á upplýsingafundi í dag gerði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, umræddar breytingar á sóttvarnalögum sérstaklega að umtalsefni en hann hvatti þingheim til að samþykkja breytingarnar sem allra fyrst því herða þyrfti takmarkanir á landamærunum.
Sjá nánar: Hertar aðgerðir á landamærunum í skoðun
Ísland væri á meðal þeirra Evrópuþjóða sem hefðu frjálslegasta fyrirkomulagið á landamærunum. Þórólfur sagðist hafa áhyggjur af stöðunni því veiran gæti sloppið í gegn með því fyrirkomulagi sem nú er í gildi.